Successfully reported this slideshow.

20060629 nornin a wall street hetty green

681 views

Published on

  • Be the first to comment

  • Be the first to like this

20060629 nornin a wall street hetty green

  1. 1. Nornin á Wall Street Höfundur: Charles Slack Már Wolfgang Mixa Oft er bent á ósýnileika kvenna í almennri umræðu, bæði í fjölmiðlum sem fjalla um viðburði líðandi stundar og í sögubókum. Hetty Green er líklega eitt besta dæmið um það hvernig ritarar móta söguna oft með því að draga úr vægi kvenna og jafnvel ýkja ákveðnar staðalmyndir um þær sem veita villandi sýn um raunveruleikann. Árið 1996 gáfu Micheal Klepper og Robert Gunther út bókina The Wealthy 100. Í bókinni leitast höfundar við að áætla ríkustu einstaklinga í sögu Bandaríkjanna. Erfitt er að meta slíkt vegna þess að virði eigna, hvort sem er verðbréf, fasteignir eða aðrar eignir, er síbreytilegt hugtak, jafnvel í fjármálageiranum. Því brugðu höfundar á það ráð að meta eigur fólks þegar eignir þess voru sem mestar í hlutfalli við landsframleiðslu á þeim tímapunkti. Samkvæmt þeirra útreikningum var John D. Rockefeller ríkasti einstaklingur sögunnar sem árið 1937 átti eigur sem námu um 1/65 af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Tveir samtíðarmenn eru á listanum, Bill Gates hjá Microsoft er númer 31 og ofurfjárfestirinn Warren Buffett er í 39. sæti. Þeir eiga það reyndar nýverið sameiginlegt að einbeita sér saman við góðgerðarmál. Mitt á milli þeirra í 36. sæti má sjá einu konuna á listanum, en ólíkt vinsælum staðalmyndum um konur sýndi hún góðgerðarmálum lítinn áhuga. Virði eigna hennar þegar hún lést nam rétt tæplega 1/500 af landsframleiðslu ársins 1916. Verðmæti þeirra uppreiknað til dagsins í dag væri vel rúmlega 100 milljarðar króna. Þrátt fyrir að vera eina konan á listanum er Hetty Green nánast óþekkt nafn í annálum fjármálaheimsins. Nýlega kom út ævisaga hennar eftir Charles Slack sem heitir einfaldlega Hetty. Titillinn vitnar í nafnið sem flestir tengdu við hana, sem er vísbending um hversu þekkt hún var meðal samtíðarmanna sinna. Slack hefur gert nokkra bragarbót á þessu minnisleysi samtímans enda hefur bókin vakið töluverða athygli og auk þess sumpart leiðrétt aðeins hina afar neikvæðu goðsögn varðandi Hetty. Hinn 3. júlí verða 90 ár frá láti hennar og er það verðugt tilefni að fjalla um Hetty og þessa bók. 1/6 Már Wolfgang Mixa
  2. 2. Grunnur að goðsögn Henrietta Howland Robinson fæddist í New Bedford í Massachusetts-ríki árið 1834, tæplega 130 árum áður en Warren Buffett keypti þar vefnaðarverksmiðjuna Berkshire Hathaway sem fjárfestingarfélag hans er kennt við í dag. Bærinn var þá þekktur fyrir hvalveiðar enda var þar helsta slíka höfnin á norðausturströnd Bandaríkjanna, sem á þeim tíma skipti miklu máli vegna olíunnar sem fékkst úr hvölum (þetta er áður en hún var boruð úr jörðinni). Fjölskylda hennar hagnaðist vel á hvalaiðnaðinum og var því afar vel efnuð. Lítið fór þó fyrir ríkidæmi hennar, enda fylgdi hún kvekaratrú þar sem áhersla er lögð á einfalda lifnaðarhætti. Trúarskoðanir kvekaratrúfélagsins gengu í berhögg við viðurkenndar skoðanir um samskipti manna og Guðs sem ríktu í Bandaríkjunum á þessum tíma og að auki þótti margt í fari þeirra vera sérlundað. Ofsóknir í garð þeirra leiddu meðal annars til stofnunar nýlendu þeirra í New Bedford. Margir kvekarar urðu auðugir sem trúlega má að einhverju leyti þakka þeirri naumhyggju sem þeir aðhylltust í sínu daglega lífi. Þessi velgengni skapaði ákveðna mótsögn því að margir þeirra urðu moldríkir og vissu vart hvað gera ætti við auðinn. Hetty var ekki sögð vera sérstaklega trúuð en þessi bakgrunnur skýrir að sumu leyti mótun þeirrar persónu sem átti síðar meir eftir að heilla almenning. Hún einkenndist af hörku í viðskiptum, söfnunaráráttu á peningum sem hún naut engan veginn að eyða, fyrirlitningu á þeim sem gerðu slíkt og jafnframt að stöðugri áherslu á fátækt og auðmýkt. Grunnur að auðæfum Hetty var arfur frá föður hennar, en hún var eina barn foreldra sinna sem náði að vaxa úr grasi. Hetty fékk jafnframt arf frá móðursystur sinni sem var barnlaus. Á þeim tíma fengu flestar konur engu ráðið um fjárfestingar sem tilheyrðu þeim, enda litið á þær sem ósjálfbjarga og óskynsamar. Talið var að í tengslum við fjármál væri konum sérlega hætt við taugaveiklun og þeim því talið fyrir bestu að fá ákveðnar jafnar greiðslur. Hetty las hins vegar fjármálatíðindi fyrir föður sinn frá blautu barnsbeini og sá um bókhald fjölskyldunnar sem ungur táningur. Hún hafði jafnframt um langt skeið ávaxtað sitt eigið fé vel og var skiljanlega hvorki á því að aðrir fengju neitt af arfinum né síður hafði hún áhuga á að aðrir stjórnuðu umsýslu hans. Með mikilli hörku sá Hetty til þess að frænka hennar arfleiddi hana sjálfa að nánast öllum arfi fjölskyldunnar, í stað þess að láta hann renna til líknarfélaga, vina eða annarra ættingja. Þeir sem sáu um umönnun frænkunnar fengu hana þó til að breyta þeirri erfðaskrá og rýra hlut Hetty verulega samhliða því að auka þeirra eigin hlut töluvert. Hetty tókst þó með ótrúlegum klækjabrögðum að koma stórum hluta arfsins í sína umsjá og virtist fátt heilagt í þeim efnum. Ekki aðeins beitti Hetty öllum þeim brögðum sem nauðsynleg voru meðan móðursystir hennar var enn á lífi heldur einnig eftir dauða 2/6 Már Wolfgang Mixa
  3. 3. hennar. Var hún t.a.m. grunuð um skjalafals en með her lögmanna fékk hún mörgum, þó ekki öllum, kröfum sínum framgengt. Fjárfestingar Hetty sýndi snemma mikla kænsku í fjárfestingum þó svo að hún einblíndi að mestu á áhættulítil verðbréf. Fram kemur í bók Slacks hvernig hún nýtti sér oft neikvæða umræðu til að fjárfesta í slíkum verðbréfum sem voru sérlega lágt metin vegna tímabundins tíðaranda. Fjárfestingarstefnu hennar mætti lýsa á almennum nótum sem varkárri en hún var þó ávallt tilbúin að nýta tækifæri til að kaupa stöndug verðbréf þegar ofsahræðsla greip um sig á verðbréfamörkuðum. Hún skuldaði aldrei peninga og átti reyndar ávallt peninga á hliðarlínum þannig að á slíkum tímum gat hún keypt verðbréf sem skuldugir fjárfestar neyddust til að selja á tombóluverði. Það er merkilegt að hún fjárfesti nánast einungis í fasteignum og skuldabréfum en lét hlutabréf eiga sig. Slack bendir á að í nokkur ár eftir borgarastyrjöldina þóttu ríkisskuldabréf ótraust. Hetty nýtti tækifærið og keypti stöðugt ríkisskuldabréf svo mánuðum skipti enda taldi hún með réttu að lítill grundvöllur væri fyrir almennt viðurkenndum getgátum um að ríkisstjórnin gæti ekki staðið í skilum vegna kostnaðar stríðsrekstrarins. Önnur dæmi eru lán hennar til New York-borgar á erfiðum tímum og fjárfestingar og lánveitingar hennar þegar ofsahræðslan á verðbréfamörkuðum reið yfir árið 1907. Hún þótti auk þess hafa nef fyrir því hvenær slíkar fjárfestingar urðu eftirsóttar og þá seldi hún gjarnan. Hún varð einnig fljótlega tengd margskonar fasteignabraski, þar sem hún lánaði oft með veðum í fasteignum og hélt almennt þeim eignum sem féllu henni í skaut vegna vangoldinna skulda. Hún hafði jafnan þann háttinn á að hún hélt fasteignunum lítt við heldur lét þær hækka í virði einfaldlega vegna þess að lóðirnar sem þær voru á urðu oft verðmeiri en fasteignirnar sjálfar. Á þessu tímabili kom mikill straumur innflytjenda til Bandaríkjanna sem jók stórlega eftirspurn eftir lóðum. Þó að Slack lýsi í stórum dráttum hvernig Hetty stóð að fjárfestingum sínum skortir nákvæmari lýsingar á þeim. Það væri áhugavert að vita hvernig ákveðnar fjárfestingar skiluðu sér vegna þess að hér er um að ræða ríkustu konu sögunar. Hugsanlegt er þó að slíkar upplýsingar fyrirfinnist einfaldlega ekki lengur. Litrík ævi Það var ekki einungis auður hennar sem gerði Hetty að þeirri goðsögn sem hún varð í lifanda lífi. Persónulegt líf hennar og lifnaðarhættir voru á tíðum lyginni líkastir. Hún giftist þekktum verslunarmanni og fluttist eftir nokkurra ára dvöl í Evrópu til heimabæjar hans. Fólk þar bjóst við hefðarfrú en fékk í þess stað konu sem reifst og skammaðist við tengdafjölskyldu sína, þjónustufólk og aðra heimamenn. Sérstaka athygli vakti sá siður hennar að prútta stöðugt við verslunarmenn um verð vara og kaupa helst ódýran mat, t.a.m. mulið kex í poka. Eiginmaður hennar, sem hún krafðist að skrifaði undir samning um aðskyldan fjárhag fyrir brúðkaup þeirra, varð gjaldþrota vegna glæfralega viðskipta. Áður en kom til gjaldþrots hafði Hetty sjálf þó reynt að gera bankann sinn gjaldþrota vegna skulda hans því að hún vildi taka sinn pening út, sem var stærsta innstæðan. Ekki hefði neitt fengist 3/6 Már Wolfgang Mixa
  4. 4. upp í skuldir hans hefði hún fengið sínu framgengt og tekið peninginn út því bankinn hafði ekkert annað fé milli handanna. Með góðum lögfræðingi tókst bankanum að fá Hetty til að gera upp skuldir hans en lengi vel reyndi hún að ná sér niðri á þeim einstaklingum. Reyndar voru lögfræðingar stöðugur fylgifiskur hennar, enda var hún stöðugt í réttarsölum vegna ýmissa mála, m.a. fyrrverandi lögfræðingar til að innheimta greiðslu vegna vinnu sinnar. Það sem gerði Hetty þó frægasta, jafnvel meira en auður hennar einn sér, voru nánasarlegir lifnaðarhættir hennar. Heimsmetabók Guinness fjallar sérstaklega um nísku hennar í tengslum við þegar fjarlægja þurfti fót á syni hennar því hún reyndi að finna lækni sem veitti ókeypis aðstoð á meðan ástand fótarins versnaði að því marki að honum var ekki við bjargandi. Þetta er ekki að öllu leyti rétt en hér má þó finna ákveðið sannleikskorn því Hetty var gjörn á að leita sér læknisþjónustu og þóttist vart hafa efni á að borga. Ávallt komst þó upp um hana og læknar nánast fleygðu henni út þegar þeir uppgötvuðu að ríkasta kona Bandaríkjanna væri að gera þá (og kannski einnig sjálfa sig) að fíflum. Hetty leitaði til margra lækna (og borgaði fyrir) vegna fótar sonar síns og Slack lýsir því vel hversu væntumþykja hennar á honum gerir það ólíklegt að hún hafi ekki gert allt sem í hennar valdi stóð til að laga meinið, jafnvel þó að það kostaði dágóða upphæð. Lýsingar á Hetty draga upp skýra mynd af konu sem var haldin þráhyggju varðandi auðsöfnuð og nauman lífsstíl sem erfitt er fyrir flesta að skilja. Hún leigði ódýrar íbúðir sem hún sjaldan hitaði upp í óhrjálegum hverfum New York-borgar og flutti reglulega til að forðast skattheimtu. Hún var iðulega klædd gömlum svörtum fötum, var rytjulega til fara og borðaði ódýran mat sem hún prúttaði niður, eins og í heimabæ húsbónda síns, í nærliggjandi verslunum. Þessi lífsstíll hennar og klæðnaður, og jafnvel ekki síst harka hennar í viðskiptum, leiddu til niðrandi viðurnefnis hennar: Nornin á Wall Street. Endalok alls auðsins Til að koma í veg fyrir að auður hennar kæmist út fyrir fjölskylduna passaði Hetty upp á að hvorki sonur hennar né dóttir giftust með þeim hætti að aðilar utan fjölskyldunnar gætu notið hans. Því fór það svo að sonurinn giftist fyrrverandi gleðikonu, sem hann hafði svo árum skipti verið í sambúð með, eftir lát móður sinnar, en gerði þó samning um að kona sín fengi aðeins hluta eigna sinna. Dóttir hennar, sem var afar lokaður einstaklingur, giftist ekki fyrr en hún var nærri fertug og dó maður hennar töluvert á undan henni. Hvorugt þeirra átti börn og voru því engir erfingjar til. 4/6 Már Wolfgang Mixa
  5. 5. Þó að sonurinn hafi ekki sóað öllum auðæfunum lagði hann litla áherslu á að ávaxta þau og þeim mun meiri áherslu á að njóta lífsins. Eftir hans dag rann flest af því sem eftir var til systur hans. Erfðaskrá hennar fannst inni á baðherbergi hennar þegar hún lést, 35 árum eftir að Hetty dó. Hluti arfsins rann sjálfkrafa til fjarskyldra ættingja sem höfðu ekki hugmynd um að þeir tengdust Hetty og var erfðaskrá hennar einnig afar tilviljunarkennd. Virtist hún t.a.m. styrkja rúmlega 60 háskóla einungis af því að hún þekkti nafnið á þeim í stað þess að velja ákveðna háskóla sem hefðu mikil not af slíkri gjöf. Má því segja að auðurinn sem Hetty gætti svo vel hafi dreifst út um allar trissur, þvert á vilja hennar. Það er athyglisvert við lestur bókarinnar hversu margt er líkt með Hetty og frægasta núverandi fjárfesti heimsins, Warren Buffett. Bæði eru þau sérvitur með afbrigðum og þekkt fyrir að hallast meira að auðsöfnun en að njóta hans. Buffett býr húsi sem hann hefur átt í hálfa öld og níska hans í garð barna sinna, í skjóli kenninga hans um arðsemi sparnaðar, er þekkt. Til eru fjöldamargar sögur og dæmi um þau bæði þar sem þau horfa í hverja einustu krónu. Þekkt saga um Buffett lýsir því þegar hann ætlaði að skipta fjórðungi úr dollara í smærri einingar til að borga í síma á flugvelli. Vinkona hans varð önug vegna tímaeyðsluna svo Buffett hætti við. Nornin og vitringurinn Lýsingarnar á þeim í almennri umræðu eru hins vegar eins og svart og hvítt. Hetty er nánast óþekkt í dag en það sem helst er fjallað um hana er níska hennar og sérviska og vísun til hennar sem nornarinnar á Wall Street. Buffett er aftur á móti þekktur og dáður, sérviska hans og níska þykir almennt ljá honum einfaldlega sterkari persónuleika og er oft vitnað í hann sem vitringinn frá Omaha. Hetty er skemmtileg lesning um konu sem þorði að fara eigin leiðir og gera það sem samtímafólki hennar þótti ómögulegt fyrir kvenmann að gera. Augljóst er að Hetty var sérvitringur fram í fingurgóma og sparsemi hennar tæpast nálægt því sem talist getur eðlilegt. Aftur á móti er hægt að færa góð rök fyrir því að háttalag hennar hafi sumpart verið til komið vegna stöðu hennar í samfélagi þar sem kvenmenn voru ekki taldir eiga neitt erindi í heim fjármála. Fáir karlmenn buðu henni birginn og fæstir þeirra sem það gerðu höfðu eitthvað upp úr krafsinu. Sparsemi hennar, vitfirringsleg sem hún var, lagði þó að ákveðnu leyti grunninn að auði hennar því hún var fyrst og fremst í langtímafjárfestingum þar sem vaxtavextir yfir langt tímabil skiptu miklu máli. Það er umhugsunarefni hvort Hetty hefði náð svona langt í auðsöfnun hefði þráhyggja hennar ekki verið jafnmikil og raun bar vitni. Í það minnsta eru fá teikn á lofti um að 5/6 Már Wolfgang Mixa
  6. 6. annar kvenmaður sé í þann mund að verða jafnríkur og Hetty á tímum allt annars landslags í réttindum kvenna en í því umhverfi sem Hetty upplifði. Birtist í Morgunblaðinu, 29. júní, 2006 6/6 Már Wolfgang Mixa
  7. 7. annar kvenmaður sé í þann mund að verða jafnríkur og Hetty á tímum allt annars landslags í réttindum kvenna en í því umhverfi sem Hetty upplifði. Birtist í Morgunblaðinu, 29. júní, 2006 6/6 Már Wolfgang Mixa

×